E N D E M I

Magazine on visual arts in Iceland

Fríða Björk Ingvarsdóttir

Gerðarsafni, 19. nóv. 2011. 
Opnunarerindi sýningarinnar Ó-sýn

 

Kæru Endemis-gestir;

 

Í tímamótabók sinni um myndlist, Ways of Seeing – eða Leiðir til að sjá – bendir einhver mesti hugsuður tuttugust aldar, John Berger, á þá staðreynd að sýn okkar á heiminn kemur á undan orðum okkar um heiminn. Barnið horfir og þekkir löngu áður en það getur talað.

Berger bendir ennfremur á hvernig sýn okkar kemur á undan orðum í öðrum skilningi. Þ.e.a.s. í þeim skilningi að það er sýnin sem leggur grunninn að stöðu okkar í heiminum sem umlykur okkur. Við útskýrum þann heim með orðum, en orðin geta samt aldrei vegið upp á móti þeirri staðreynd að heimurinn er allt um kring. Sambandið á milli þess sem við sjáum og þess hvað við vitum verður m.ö.o. aldrei útkljáð.

Miðlun sýnar – ekki síst í bókstaflegri merkingu svo sem í myndlist – byggir því á skynrænum hæfileikum sem eru okkur eiginlegri en tungan sjálf. Það hvernig sýn er miðlað hefur mótandi áhrif sem lifa með okkur alla tíð, lita allan okkar hugmyndaheim, og mynda með þeim hætti þann bakgrunn er við miðum öll okkar gildi við.

Allt það sem sett er fram í þeim heimi er við sjáum hefur áhrif á okkur. Jafnvel það sem við viljum ekki sjá hefur áhrif á okkur. Einungis það sem við sjáum ekki – eða er ekki sýnt – er áhrifalaust. Sýnin sem okkur er boðið upp á vegur því þungt, ekki einungis í upplifun okkar af heiminum, heldur einnig bókstaflega í því hvernig við erum.

Þótt það gefi auga leið að við sjáum ekki öll alltaf það sama, þá er eiginlega með miklum ólíkindum hversu mikið af sýn okkar er sameiginleg. Fyrir utan okkar eigin persónulegu sýn á heiminn, eigum við okkur sammannlega sýn sem blasir með áþekkum hætti við flestum.

Mikið vægi þessarar sammannlegu sýnar er iðulega það sem skapar með okkur samhyggð, samúð og samsömun – allt það sem er skilyrðislaust af hinu góða. En önnur atriði hinnar sameiginlegu sýnar,  – svo sem rótgróin viðhorf til hlutverks kvenna – þjóna ekki svo göfugum tilgangi, heldur hafa viðhaldist með þeim hætti að þau leiða til misræmis, mismununar og misbeitingar.

Hingað til hefur hin sammannlega sýn hefðarinnar sem sagt verið dálítið þröng – dálítið karllæg, dálítil endurtekning á einhverju sem á rót sína að rekja allt aftur til forneskju. Það væri freistandi að fara hér út í tölfræði máli mínu til stuðnings, en ég ætla að stilla mig um það því Endemis-konur skrifuðu sérdeilis fína grein á þeim nótum í fyrsta tölublað Endemis, sem ég hvet ykkur eindregið til að kaupa og lesa.

Á sýningunni sem hér opnar er ykkur boðið upp á einskonar andstæðu þess er yfirleitt blasir við sem hin sameiginlega sýn á sviði myndlistar; upp á ó-sýn. Ó-sýnin er samkvæmt skilgreiningum Hlyns Helgasonar einskonar mótvægi við sýn hefðarinnar. Hlynur skrifar afar skemmtilega um ó-sýnina í 2. tölublað Endemis er kom út í dag og ég hvet ykkur eindregið til að kaupa það líka og lesa.

Og með þeirri hvatningu er ég komin að kjarna málsins: Því það að ungar konur skuli á öðrum áratug tuttugustu og fyrstu aldar finna sig knúnar til að hefja útgáfu tímarits sem umfram annað er helgað samtímalist íslenskra kvenna, er áminning. Við þurfum nefnilega nýja sammannlega sýn; sem (svo vísað sé til orða Bergers) leggur grunn að jafnri stöðu okkar allra í heiminum. Sýn þar sem verk kvenna eru jafn áberandi og jafnt metin og verk karla, þar sem ó-sýnin kemur ekki fram á sjónarsviðið sem andsvar við óréttlæti, fálæti, andvaraleysi, áhugaleysi, virðingarleysi – eða hvaða læti eða leysi það nú eru sem notuð eru sem afsakanir – heldur sem náttúrulögmál grundvallað á þeirri staðreynd er telur helming mannkyns (og reyndar rúmlega það).

Og að lokum: Þakka ykkur Endemis-konur fyrir að vekja athygli okkar allra á þessu enn og aftur.

 

Fríða Björk Ingvarsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

Endemi- Sjónrit um samtímalist endemitimarit@gmail.com Skipholt 11-13 105 Reykjavík
%d bloggurum líkar þetta: